Íslensk nýsköpun hlýtur 1,3 milljarða króna styrk frá ESB

Evrópusambandið hefur veitt 1,3 milljörðum króna til stórs nýsköpunarverkefnis sem ætlað er að þróa grænar orkulausnir fyrir flutningaskip og stuðla þannig að frekari grænum orkuskiptum. Íslenska fyrirtækið Verkís leiðir evrópska samstarfsverkefnið "WHISPER" sem samanstendur af 13 fyrirtækjum og stofnunum frá ESB ríkjum og Íslandi.

Evrópska samstarfsverkefnið "WHISPER" hefur hlotið 1,3 milljarða króna styrk frá Horizon Europe, rannsóknar- og nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins. Samstarfsverkefnið mun standa yfir í fjögur ár frá 2023 til 2027. Verkefnið samanstendur af 13 fyrirtækjum og stofnunum frá Íslandi og ESB ríkjum en íslenska fyrirtækið Verkís leiðir verkefnið. Markmið WHISPER er að minnka kolefnaútblástur frá flutningaskipum með nýstárlegum vindtúrbínum, vindseglum og sólarsellum, en áætlað er að hægt sé að draga úr kolefnaútblæstri um allt að 30%. 

Íslenska sprotafyrirtækið SIDEWIND hefur hannað sérstaka vindmyllugáma eða vindtúrbínur sem komið er fyrir í opnum gámum á flutningaskipum. Þessir vindmyllugámar geta nýtt hliðarvind við framleiðslu rafmagns og því sparað eldnseyti og minnkað útblástur frá skipum. SIDEWIND hefur hannað tæknina í nokkur ár en WHISPER samstarfsverkefnið leggur áherslu á að áframþróa tæknina. Íslensku fyrirtækin í samstarfsverkefninu eru Verkís, Athygli og Samskip.

Sendiherra ESB á Íslandi, Lucie Samcová-Hall Allen, hitti stofnendur SIDEWIND og hlustaði á kynningu á verkefninu sem og fékk að skoða frumgerð vindtúrbínunnar.