Ég býð ykkur hjartanlega velkomin á vefsíðu sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi.

  • Image
    Portrait of Ambassador Lucie Samcová

    Lucie Samcová – Hall Allen, sendiherra Evrópusambandsins 

    Copyright: Sendinefnd Evrópusambandsins 

Ávarp sendiherra

Kæri gestur, 

Evrópusambandið og Ísland tengjast á ótrúlega djúpan, vingjarnlegan og innihaldsríkan hátt. Þetta samband byggist á sameiginlegum gildum og nánum samskiptum íbúa okkar. Helsta undirstaða þessa sambands er hinn einstaki og árangursríki samningur um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem tók gildi 1994, milli ESB annars vegar, og Íslands, Noregs og Liechtensteins hins vegar.

EES-samningurinn endurspeglar gagnkvæmt traust og skuldbindingu okkar til langs tíma ásamt því að veita svigrúm til þróunar og breytinga, þegar upp koma nýjar áskoranir og tækifæri. Án nokkurs vafa, kveður EES-samningurinn á um þá víðfeðmustu samvinnu sem Evrópusambandið hefur undirgengist, á heimsvísu.

EES-samningurinn fjallar ekki síst um fjórfrelsið. Þetta hugtak vísar til frjáls flæðis varnings, fólks, þjónustu og fjármagns og er grundvöllur innri markaðar ESB og EES. Schengen-samstarfið veitir svo Íslendingum og öðrum þátttökuríkjum frelsi til að ferðast á milli landa án eftirlits á landamærum. Þetta auðveldar bæði Íslendingum og öðrum Evrópubúum að kynnast því sem Evrópa og Ísland hafa upp á að bjóða. Enda er heimsókn til Íslands á óskalista margra Evrópubúa!

En EES er mun meira en þetta. Ekki má gleyma nánu samstarfi okkar þegar kemur að rannsóknarvinnu, þróunarmálum, menntamálum, félagslegri stefnumótun, umhverfismálum, neytendavernd, almannavörnum, menningu og mörgu fleiru. Á hverjum degi tek ég sjálf eftir nýjum rannsóknarverkefnum, fyrirtækjum og samfélags- og menningarmálum. Í þessu starfi finnst mér einna mest gefandi að sjá þennan raunverulega árangur af samvinnu okkar allra og að kynnast því frábæra fólki sem gerir þetta að veruleika.

Eftir undirskrift EES samningsins á tíunda áratugnum hafa fleiri en 10% íbúa á Íslandi notið góðs af Erasmus-áætluninni sem styður fólk til að nema og búa í öðru landi. Nú eiga næstum 40.000 manns frá Evrópusambandsþjóðunum heima á Íslandi, sem samsvarar meira en 10% fjölda landsmanna. Þessar tölur einar og sér sýna hversu náið og mikilvægt samband Íslands og ESB er.

Ísland er einnig mikilvægur samstarfsaðili Evrópusambandsins á alþjóðavettvangi. Við erum iðulega sammála um utanríkismál, tökum þátt í þróunar-og mannúðarstörfum og eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta þegar kemur að uppbyggingu og því að treysta í sessi sterka alþjóðlega marghliðasamvinnu, sem gerir okkur kleift að takast á við þær fjölbreytilegu áskoranir sem fylgja nútímanum. Það er einbeittur sameiginlegur vilji ESB og Íslands að takast á við loftslagsbreytingar, vernda norðurslóðir og stuðla að jafnrétti kynjanna, svo eitthvað sé nefnt.

Starfsfólk sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi einsetur sér að viðhalda þessu farsæla sambandi. Við viljum hlusta á skoðanir Íslendinga og veita þeim nýjustu upplýsingar um Evrópusambandið og stefnumál þess. Það er von mín að fólk hafi gagn af þessari vefsíðu og finni þær upplýsingar sem það leitar að. Ég hvet ykkur einnig til að líta á Facebook og Twitter síður sendinefndarinnar, sem við uppfærum reglulega. Við hlökkum til að heyra frá ykkur.

Lucie Samcová – Hall Allen, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi