30 ára afmæli EES-samningsins fagnað

30 ára afmæli EES-samningsins var fagnað þann 8. maí með vel sóttu málþingi um EES-samstarfið á Grand hótel og með uppskeruhátíð Evrópuverkefna í Kolaportinu. Um 150 manns sóttu málþingið og nokkur hundruð gesta kynntu sér afrakstur Evrópusamstarfs í Kolaportinu. 30 ára amfælisfögnuðurinn var haldinn í samstarfi við Rannís, utanríkisráðuneytið og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið.

 

EES samningurinn markar mikilvæg kaflaskil í sögu sambands Íslands og Evrópusambandsins en gildistaka samningsins fyrir 30 árum tryggði aðgang Íslands, Noregs og Liechtenstein að sameiginlega innri markaði Evrópusambandsins og kom á fjórfrelsinu þ.e. frjálsu flæði fólks, fjármagns, vöru- og þjónustuviðskipum milli EES EFTA ríkjanna þriggja og aðildarríkja Evrópusambandsins.  Samningurinn hefur skapað óteljandi tækifæri fyrir íbúa EES ríkjanna allra á fjölmögrum sviðu og tryggt stöðugt og áreiðanlegt samstarf milli EES-ríkjanna sem telja 30 talsins.

Fögnuðurinn hófst um morguninn með málþingi sem bar yfirskriftina "EES í 30 ár - ávinningur, tækifæri og áskoranir" og sóttu um 150 gestir málþingið. Í ræðum sínum bentu þær Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra, Iliana Ivanova, framkvæmdastjóri ESB í málefnum nýsköpunar, rannsókna, menningar, menntunar og æskulýðsmála, og Lucie Samcová - Hall Allen, sendiherra ESB á Íslandi, á mikilvægi EES-samningsins fyrir bæði Ísland og ESB, og mikilvægi þess að Ísland og ESB tali skýrt fyrir sameiginlegum gildum á tímum aukins ófriðar. Einnig lögðu þær áherslu á að ávinningur EES-samstarfsins sé ótvíræður og að stofnun Evrópska efnahagssvæðisins hafi verið mikið heillaspor fyrir íbúa, fyrirtæki, stofnanir og samtök. Sendiherra Evrópusambandsins sagði að stofnaðilar samningsins hafi sýnt mikla framsýni við myndun og undirritun þessa mikilvæga samnings sem átti síðan eftir að þjóna lykilhlutverki í að stuðla að auknum viðskiptum, fjölga tækifærum fyrir íbúa og fyrirtæki, og meiri samheldni meðal Evrópuþjóða. Í ávarpi sínu lagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra áherslu á góðan ávinning evrópskrar samvinnu á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar. Borgar Þór Einarsson, varaframkvæmdastjóri Uppbyggingarsjóðs EES, og Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Rannís, fjölluðu um mikilvægi evrópskra samstarfsverkefna og þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins (e. EU programmes). Sigríður Valgeirsdóttir, staðgengill ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóri hjá háskóla, iðnaðar-, og nýsköpunarráðuneytinu, opnaði málþingið og hélt utan um dagskrá þess.

EU DEL Iceland - HoD speech - EEA30

EU HoD and Icelandic Foreign Minister - EU DEL ICELAND EEA30

Sendiherra Evrópusambandsins, Lucie Samcová-Hall Allen, ásamt utanríkisráðherra Íslands, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur

Í síðari hluta málþingsins fóru fram umræður um áhrif  EES-samstarfsins og þátttöku Íslands í samstarfsáætlunum ESB líkt og Erasmus+, Creative Europe, Horizon, o.fl. í þremur pallborðsumræðum undir fundarstjórn Björns Malmquist, fréttamanns hjá RÚV. Fengnir voru fulltrúar íslenskra fyrirtækja, mennta- og rannsóknarstofnana, skapandi greina og nýsköpunar til þess að fjalla um áhrif samstarfsverkefnanna á Íslandi.

Nálgast má upptöku af málþinginu hér

EEA 30 and Europe Day Celebration - EU DEL Iceland

Að málþingi loknu bauð sendiherra Evrópusambandsins í veislu í tilefni Evrópudagsins sem haldinn er hátíðlegur um alla Evrópu 9. maí 2024.

Síðdegis héldu skipuleggjendur afmælisfögnuðar EES-samningsins "Uppskeruhátíð Evrópuverkefna" í Kolaportinu. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setti hátíðina og flutti ræðu um EES-samningsins auk sendiherra ESB og forstöðumanns Rannís. Á hátíðinni kynntu um 40 íslenskar stofnanir, fyrirtæki og sendiráð ESB-ríkja starfsemi sína og árangursrík samstarfsverkefni sem hlotið hafa styrki úr samstarfsáætlunum ESB. einnig kynntu sendiráð ESB-ríkja menningu sína og tækifæri sem bíða Íslendinga erlendis.

President of Iceland at the EEA 30 Celebration - EU DEL ICELAND

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, skoðaði básana á Uppskeruhátíð Evrópuverkefna í Kolaportinu. Hér er hann við spænska básinn
President of Iceland with EU Ambassadors at EEA 30 Celebrations -

Forseti Íslands ásamt sendiherra ESB og sendiherrum og fulltrúum aðildarríkja ESB (V: Danmörk, Pólland, Svíþjóð, ESB, Forseti, Finnland, Spánn, Slóvenía, Frakkland)

 

Sendinefndin þakkar forseta Íslands, öðrum skipuleggjendum, undarstjórum, þátttakendum í pallborðsumræðum, og öllum gestum fyrir vel heppnaðan afmælisfögnuð og innihaldsríkar umræður um mikilvægi EES-samningsins.

EU Ambassador at the EEA 30 Celebrations

Sendiherra Evrópusambandsins ávarpar gesti í Kolaportinu á opnun Uppskeruhátíðar Evrópuverkefna