Opnunarhátíð Evrópska Verðlaunatímabilsins í Bíó Paradís
Það iðaði allt af lífi og fjöri síðasta miðvikudag, þann 5. nóvember, þegar Evrópska verðlaunatímabilið (European Award Season) var sett í fjórða skiptið í Bíó Paradís. Þar var evrópsk kvikmyndagerð í brennidepli, en á annað hundrað listamenn, stjórnmálamenn, fjölmiðlar og aðrir hópuðust saman til að halda upp á opnun tímabilsins. Eftir sýningu var gestum boðið að njóta fljótandi veitinga í móttöku í boði sendinefndar Evrópusambandsins á Íslandi
Sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, Clara Ganslandt, lét sig ekki vanta en hún hélt stutta tölu fyrir hátíðargesti. Hún lagði áherslu á framlög Evrópusambandsins til íslenska kvikmyndaiðnaðarins, en mikill fjöldi kvikmynda og sjónvarpsþátta á Íslandi, sem og um alla Evrópu, hafa hlotið styrk úr hinum svokallaða ‘skapandi Evrópusjóð,’ eða ‘Creative Europe programme.’ Að hennar sögn er það algjört grundvallargildi Evrópusambandsins að efla menningarlega fjölbreytni og listrænt samstarf þvert á landamæri, t.a.m. með stuðningi til íslenskrar listar.
Í þetta skipti varð fransk-belgíska kvikmyndin „Young Mothers“ fyrir valinu til að kynna hátíðina til leiks. Hátíðin sjálf stendur yfir þar til 17. janúar en þá lýkur henni formlega, þegar Evrópsku kvikmyndaverðlaunin verða kynnt í Berlínarborg í Þýskalandi. Myndin fer í almenna sýningu í Bíó Paradís að frumsýningu lokinni, en höfundar hennar, Dardenne bræður, eru taldir til áhrifamestu evrópsku kvikmyndaskálda samtímans.
Það er margt á döfinni hjá Bíó Paradís um þessar mundir, en kvikmyndir líkt og „It was just an accident,“ „Sentimental Value,“ og „The Extraordinary Miss Flower“ verða sýndar í fyrsta og eina listræna kvikmyndahúsinu á Íslandi. Við hvetjum áhugasama til að kynna sér úrvalið á bioparadis.is og næla sér í miða!