Saman stöndum vér
Tuttugasti og fjórði febrúar markar ár frá upphafi grimmilegrar allsherjarinnrásar Rússlands í Úkraínu. Ár af ótrúlegu hugrekki og þrautseigju úkraínsku þjóðarinnar í vörn lands síns, lýðræðis og frelsis. Einnig markar dagurinn ár af staðfestu og samstöðu Evrópusambandsins, aðildarríkja þess og annara bandamanna – þar á meðal Íslands – í fordæmingu okkar á árásarstríði Rússlands og í stuðningi okkar við Úkraínu, svo sem með mannúðar-, efnahags-, fjárhags- og hernaðaraðstoð.
Á þessu eina ári hafa Evrópusambandið, aðildarríki þess og stofnanir, tileinkað 7.875 milljarða króna til stuðnings Úkraínu. Meðal annars hefur þessum fjármunum verið varið í neyðaraðstoð og í endurbyggingu skóla, spítala, orkuvera og annarra lífsnauðsynlegra innviða. Þar á meðal hefur Evrópusambandið varið 1.850 milljörðum króna til hernaðaraðstoðar handa Úkraínu. Evrópusambandið hefur tekið áskoruninni um að veita yfir fjórum milljónum fólks á flótta undan átökum tímabundið skjól og hafa aðildarríki Sambandsins boðið þau velkomin. Til þess að stemma stigu við áframhaldandi stríðsrekstri Pútíns hefur Evrópusambandið beitt fjölmörgum pökkum af víðtækum viðskiptaþvingunum. Þeim hefur ekki einungis verið beitt gegn einstaklingum sem bera persónulega ábyrgð á innrásinni, heldur einnig gegn nauðsynlegum innfluttum varningi fyrir rússneska herinn. Þar að auki hefur þvingunum verið beitt gegn rússneskum útflutningsvarningi, svo sem kolum, olíu og gasi. Mikil áhersla hefur verið lögð á það að framkvæmd þvingana hafi ekki neikvæðar afleiðingar á mataröryggi í heiminum.
Evrópusambandið hefur hlotið stuðning vinaþjóða og bandamanna við framkvæmd þessara aðgerða, þar á meðal stuðning Íslands. Auk þess að leita allra leiða til þess að styðja Úkraínu á alþjóðavettvangi hefur íslenska ríkisstjórnin veitt Úkraínu umtalsverðan stuðning, svo sem fjárhags- og mannúðaraðstoð. Meðal annars hefur Ísland sent rafala, vetrarútbúnað og sjúkravarning, aðstoðað með flugsendingar og sent sprengjusérfræðinga til þess að þjálfa úkraínskar sveitir í jarðsprengjuleit og -hreinsun. Íslenskur almenningur og íslensk félagasamtök hafa sýnt mikla gjafmildi í sínum stuðningi, ekki síst í móttöku yfir 2.580 flóttamanna. Stuðningur Íslands hefur verið verulegur og sterk afstaða Íslands hefur vakið athygli í Úkraínu, Evrópu og víðar.
Árásarstríð Rússlands gegn Úkraínu hefur undirstrikað þá staðreynd að náið samstarf Íslands og Evrópusambandsins er byggt á sameiginlegum gildum: lýðræði, mannréttindum, réttarríkinu og samskiptum ríkja á grundvelli alþjóðalaga. Þessi gildi hafa verið undirstaðan í samvinnu okkar við að skapa sameiginlega hagsæld, hagvöxt og velferð fyrir þjóðfélög okkar. Nú á krísutímum hafa þau hvatt okkur til dáða við að verja þessi sömu gildi. Við höfum staðið saman í ár nú þegar og við munum standa saman eins lengi og þörf er á – þar til Pútín lætur af vægðarlausum árásum sínum á Úkraínu og íbúa hennar, þar til Úkraína hefur verið endurbyggð og stríðsglæpamenn og vitorðsmenn þeirra dregnir fyrir rétt.
Höfundar eru:
Lucie Samcová - Hall Allen, sendiherra Evrópusambandsins
Kirsten R. Geeland, sendiherra Danmerkur
Anu Laamanen, sendiherra Finnlands
Guillaume Bazard, sendiherra Frakklands
Gerard Pokruszyński, sendiherra Póllands
José Carlos Esteso Lema, staðgengill sendiherra Spánar
Pär Ahlberger, sendiherra Svíþjóðar
Dietrich Becker, sendiherra Þýskalands